11 gull til Íslendinga á HM
Íslenska landsliðið í hestaíþróttum náði metárangri á HM íslenska hestsins sem lauk í Hollandi í dag. Liðið vann til alls 11 gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna í íþróttagreinum og íslensku kynbótahrossin stóðu efst í fimm af sex flokkum.
A-úrslit í öllum greinum fóru fram í dag og þar voru Íslendingar í toppbaráttunni á flestum sviðum. Í slaktaumatölti áttu Íslendingar þó ekki fulltrúa, en Íslendingurinn Máni Hilmarsson sem keppir fyrir Svíþjóð vann öruggan sigur í þeirri grein á Gljátoppi frá Miðhrauni með einkunnina 8.75, en heimsmeistari ungmenna í slaktaumatölti varð Lena Becker á Bikari frá Ytra-Vallholti með 7.46.
Fjórgangsúrslitin urðu að einvígi á milli Jóhönnu Margrétar Snorradóttur á Bárði frá Melabergi og Frauke Schenzel frá Þýskalandi á Jódísi vom Kronshof. Þær leiddu til skiptis, en svo fór að Frauke hafði hársbreidd betur, sigraði með 8.03 en Jóhanna Margrét fékk 8.0 og silfrið. Jón Ársæll Bergmann varð svo heimsmeistari ungmenna í fjórgangi á Frá frá Sandhól með einkunnina 7.50.
Sara heimsmeistari í fimmgangi
Þá var komið að fimmgangnum þar sem heimsmeistarinn Jon Stenild frá Danmörku leiddi fyrir forkeppni, en hann lenti hins vegar í vandræðum á brokkinu og gerði þar með út um sínar vonir. Pierre Sandsten Hoyos frá Austurríki og Búi frá Húsavík voru sterkir fram að skeiðinu,
En Sara Sigurbjörnsdóttir hélt ró sinni allan tímann og reið Flóka frá Oddhóli af miklu öryggi, smellti svo dísætri rúsínu í pylsuendann á skeiðinu þar sem hún átti þrususpretti og innsiglaði sigurinn með einkunnina 7.90. Íslendingar náðu sér líka í titil í ungmennaflokki þegar Glódís Rún Sigurðardóttir varð heimsmeistari ungmenna í þessari grein á Sölku frá Efri-Brú með einkunnina 7.21.
Jóhanna vann tölthörnið eftirsótta
Hápunktur heimsmeistaramótanna eru jafnan úrslit í tölti og enginn gripur jafn eftirsóttur og hið sögufræga tölthorn. Þar stóð baráttan á milli Jóhönnu Margrétar Snorradóttur á Bárði frá Melabergi og Sys Pilegaard á Abel fra Tyrevoldsdal. Jóhanna Margrét og Bárður voru hærri fyrir sitt geislandi hæga tölt og frábærar hraðabreytingar, en Sys og Abel eru sterk á ferðinni og skoruðu hærra fyrir greitt tölt. Það dugði þó ekki til og heimsmeistaratitill í höfn hjá Jóhönnu Margréti – einkunnin 8.94.
Herdís Björg Jóhannsdóttir, yngsti knapi íslenska liðsins, varð svo heimsmeistari í tölti ungmenna á Kvarða frá Pulu, en hún er aðeins 17 ára.
Sigurbjörn Bárðarson og Hekla Katharina Kristinsdóttir landsliðsþjálfarar segja árangurinn ánægjulegan, orðið hafi ákveðin kynslóðaskipti og framtíðin sé björt, samkvæmt RUV.