Úrhelli í Oirschot
Mikil rigning heldur áfram að gera mótshöldurum og knöpum erfitt fyrir við undirbúning heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Oirschot í Hollandi.
Í dag hefur rignt mikið og svo fór að fæstir íslensku knapanna nýttu æfingatíma sína á vellinum í morgun, en þá rigndi sem hellt væri úr fötu. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að samkvæmt veðurspá á votviðrinu að linna í kvöld og spáin út vikuna er ljómandi góð, en mótið hefst á þriðjudagsmorgun.
Þrátt fyrir að votviðrið hafi tafið fyrir uppsetningu mótssvæðisins er allt að smella nú á lokametrunum. Mótið er haldið á hestabúgarðinum Stoeterij de Breiðablik og eru allar stúkur, tjöld og hús reist á staðnum og tekin niður að móti loknu.
Öll landslið eru mætt á mótsstað, en alls taka 17 þjóðir þátt að þessu sinni. Eitthvað hefur verið um forföll, en knapi og hryssa úr danska liðinu lentu í umferðaróhappi á leiðinni þegar hestakerra losnaði aftan úr bíl á hraðbraut. Hryssan Dama slasaðist ekki alvarlega, en mun þó ekki mæta til kynbótasýningar á HM líkt og ætlað var. Þá hefur Anne Stine Haugen í norska liðinu dregið sig úr keppni, vegna meiðsla á hestinum Hæmi fra Hyldsbæk, en þau eru önnur á heimslistanum í fjórgangi og þóttu líklega til afreka.
Fyrstu keppendur Íslands munu taka þátt í gæðingaskeiði á þriðjudagskvöld, en sýningar kynbótahrossa hefjast á þriðjudagsmorgun og þar á Ísland fulltrúa í öllum flokkum, samkvæmt RUV.