„Það eru mörg tár sem falla, það er alveg víst“
Maður er alltaf að leita að einhverju sem hrífur mann, segir Sigurbjörn Bárðarson, landsliðseinvaldur í hestaíþróttum. Hann velur lið Íslands fyrir heimsmeistaramót íslenska hestsins, sem er í Hollandi í ágúst.
Sigurbjörn valdi keppendur á mótið Allra sterkustu sem haldið var í Víðidal í gær en þar stigu landsliðsknapar- og hestar á svið til að sýna sig og sanna fyrir landsliðsþjálfaranum fyrir HM. Sigurbjörn hefur verið landsliðsþjálfari frá 2018 og þekkir vel hvað þarf til að ná árangri á HM. Hann vann sjálfur 13 heimsmeistaratitla og er okkar sigursælasti knapi frá upphafi. En að hverju leitar hann í valinu fyrir HM.
„Maður leitar að þessari samhæfingu, það er að segja maður og hestur, þeir eru eitt. Maður leitar náttúrulega alltaf að því að hafa færa knapa sem hafa verkfæri til þess að vinna. Þetta er bara eins og í öðrum íþróttum, Formúlu 1 til dæmis; þar verður bíllinn að virka. Þannig að hesturinn verður alltaf að hæfa til verksins, eins og maður segir, og svo eru knaparnir. Maður er alltaf að leita að einhverju framúrskarandi og sem maður tekur eftir og markmiðið er alltaf að fá að eitthvað sem er athyglisvert og sem hrífur þig.“
Hestar sem fara út til keppni á HM verða allir skildir eftir erlendis af sóttvarnarástæðum. Það skekkir því oft samkeppnisstöðu íslensku keppendanna að vera alltaf á nýjum hestum, auk þess sem tengsl knapa og hests rofna.
„Það eru mörg tár sem falla. Það er alveg víst því margir eru kannski að selja hest sem þeir eru búnir að vera með í fjögur ár, sex ár, liggja yfir og vinna með. Það er orðin svo mikil persónuleg tenging á milli manns og hests. Svo tekur hitt við, þessir hestar sem eru afburðar, heimsmeistaramótið er á tveggja ára fresti, þeir eru seldir til keppinauta okkar og við erum að mæta þeim aftur eftir tvö ár og þá þurfum við að vera búin að þjálfa upp aðra hesta. Þetta er svolítil mismunun fyrir okkur á Íslandi en við þetta þurfum við að búa og það er ekkert við því að gera.“, samkvæmt RUV.